Enn ein vikan að líða undir lok. Vægt til orða tekið fréttnæm vika. Bush náði að sannfæra óþægilega marga um að hann væri vegurinn, Arafat um það bil að hitta feður sína, kornabarn finnst í skógi hér í Odense og svo hrikaleg sprenging í flugeldaverksmiðju í Kolding þar sem a.m.k 150 hús eyðilögðust. Ein sem er með mér í hóp býr í Kolding, töluvert frá slysstaðnum, sagði að það hefði allt nötrað hjá henni. Sprengingin mældist upp á 2 á Richter á jarðskjálftamælum, sem telst nú bara nokkuð gott.
Rúmlega 80 voru fluttir á sjúkrahús og einn slökkviliðsmaður lést. Fyrir 4 árum síðan gerðist svipaður atburður í flugeldaverksmiðju í Hollandi og þá voru uppi umræður hér um flugeldaverksmiðjuna í Kolding. Það er í raun með ólíkindum að ekki fleiri skyldu slasast. Sprengingin varð á miðvikudag og á fimmtudagskvöld logaði enn í rústunum.

Sólrún er að vinna núna um helgina og ég sit núna í stofunni með Matthíasi og við erum að horfa á Bubba byggir í x-tugasta skiptið. Ef einhver er í vafa um hvað á að gefa piltinum í jólagjöf þá er málið að skoða Bubba byggir deildina.

Alexander greyjið er enn veikur og núna klukkan 11 í morgun sagðist hann ætla að "leggja sig"!!! þetta hef ég aldrei heyrt hann segja og sýnir að hann er greinilega lasinn blessaður.
Dísa er í tölvunni og það er magnað að sjá hvað þessi kríli eru fljót að læra.

Núna er ég í 3ja manna hóp (öllu heldur eins manna og 2ja kvenna hóp) og við eigum að skila verkefni á mánudag upp á litlar 15 síður. Lotte og Pernille heita hópfélagar mínir og þær búa annars vegar í Kolding og hins vegar í Vejle. Fyrir þá sem ekki vita þá eru báðir þessir staðir á Jótlandi en ég er staddur á Fjóni. Við sem sagt hittumst fyrst og fremst á "Internetinu" og það er nú það sem þetta nám gengur að hluta til út á :). Svo munum við vinna saman að þremur stórum verkefnum sem skilast fyrir jól. Ég var pínu hræddur í fyrstu að þær yrðu svolítið stífar af því að þær virka svona nokkuð miklir fullkomnunarsinnar út á við. Ég hef síðan séð að þær eru vissulega fullkomnunarsinnar en með mátulegan húmor fyrir sjálfum sér og okkur kemur bara alveg ágætlega saman. Lotte er mikill aðdáandi lambakjöts en hefur aldrei smakkað íslenskt lambakjöt!!! bara skoskt og kjöt frá Hringadrottinslandinu Nýja Sjálandi. Hér er næstum allt lambakjöt frá Nýja Sjálandi sem er satt best að segja ekki "í leiðinni".

Í gær var svokallaður J-dag, þar sem h.u.b. hver einasti dani sem kann á flöskupptakara fær sér Tuborg jólabjór. Þeir kalla það að "drekka inn jólin". Daninn kann svo sannarlega að "hygge sig" og ég held að ég hafi valið rétt land af því að ég er svo "hyggelig".

Þann 10. nóv er svo Mortens aften sem er gamall danskur siður. Morten eða öllu heldur Martin var trúaður piltur sem vildi vera svona meira út af fyrir sig. Þegar þorpsbúar vildu gera hann að biskup þá faldi hann sig í gæsahóp en lætin í blessuðum gæsunum komu upp um hann og hann "neyddist" til að taka við embættinu. Blessaður Martin lagði þá til að allir myndu skipulega vinna að því að "eyða" gæsunum og snæða eina 10. nóvember hvert ár. Þetta eru danir alveg ágætlega sáttir við, en þar sem gæsir eru nú tiltölulega dýr matur þá leyfist að borða önd á þessum degi. Ég er að velta fyrir mér að skella mér á einn Morten þ. 10.

Danir spyrja mig margir út í gosið heima á Íslandi og um Ísland almennt. Þeim finnst þetta alveg magnað. Svo var stór grein í einu blaðinu hér í gær sem eiginlega fjallaði um það að svarið við lífsgátunni væri að finna í "slæmum kaffibolla" á Kaffivagninum og sjávarnið. Skemmtileg grein.

jæja best að fara að gefa þessum krílum að borða.

kveðja,

Arnar Thor
PS: ég hef tekið eftir því í seinustu póstum að ég hef verið alveg ofsalega spar á að nota kommur í setningum og biðst ég afsökunar á því. Einnig skrifaði ég eitt sinn "vettfangi", en engum virðist hafa orðið meint af.

Ummæli

Vinsælar færslur